Forsíða IVR

Baldur Pétursson ráðinn aðstoðarframkvæmdarstjóri hjá European Bank í London

Baldur Pétursson, deildarstjóri hjá iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu hefur verið ráðinn sem aðstoðarframkvæmdarstjóri við European Bank for Reconstruction and Development (EBRD) í London frá og með 8. september 2006. Hann mun sinna málefnum er varða stjórn bankans. European Bank er í eigu 60 landa og er einn stærsti fjármögnunar- og fjárfestingaraðili frá austur Evrópu til mið Asíu og hefur starfsemi í tæplega 30 löndum. Hlutverk bankans er að stuðla að umskiptum úr miðstýrðum áætlunarbúskap fyrrum Sovétlýðvelda, Austur Evrópu og mið – Asíuríkja yfir í opin hagkerfi og efla um leið hag- og lýðræðisþróun þessara landa. Á liðnum árum hafa umbætur í stjórnarháttum og aukinn hagvöxtur þessara landa aukið tækifæri einstaklinga og fyrirtækja og hafa umsvif íslenskra fyrirtækja aukist verulega á þessu svæði að undanförnu. Reikna má með frekari framþróun og viðskiptatækifærum í þessum löndum á komandi árum og hefur EBRD bankinn gengt veigamiklu hlutverki við að aðstoða fyrirtæki á svæðinu, m.a. með þjónustu á sviði fjármála.

Frá 2002 til 2006 starfaði Baldur sem deildarstjóri hjá iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu á sviði samkeppnishæfni, byggða- og alþjóðamála og frá 1998 til 2002 var hann sendiráðunautur við sendiráð Íslands í Brussel fyrir iðnaðar-, viðskipta-, umhverfis- og landbúnaðarráðuneytið. Hann hóf störf í iðnaðarráðuneytinu árið 1985, en starfaði áður sem sjálfstæður rekstrarráðgjafi. Baldur er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og hefur meistaragráðu í alþjóðaviðskiptum frá Boston University. Hann hefur einnig stundað nám við Columbia University.

Baldur hefur verið varamaður í stjórn EBRD fyrir hönd Íslands og hefur átt sæti í fjölmörgum innlendum og erlendum stjórnum og nefndum sem formaður eða fulltrúi, s.s. innan OECD, Evrópusambandsins, Alþjóða vetnissamstarfsins IPHE, Fríverslunarsamtaka Evrópu EFTA, Orkusáttmála Evrópu ECS, WTO, Norrænu ráðherranefndarinnar, European Productivity Center o.fl. Hann hefur jafnframt stýrt starfi fjölda nefnda, rita og verkefna m.a. í samstarfi við innlenda sem alþjóðlega ráðgjafa, t.d. er varða fyrirtæki, atvinnulíf, samkeppnishæfni, fjármál, alþjóðavæðingu, viðskipti, stefnumótun atvinnulíf og byggðamál. Hann hefur m.a. nýlega stýrt uppbyggingu vaxtarsamninga víðsvegar um land fyrir hönd iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins.

Reykjavík, 11. ágúst 2006.



 







Stoðval