Forsíða IVR

Fréttatilkynning um auðlindafrumvarp

Iðnaðarráðherra mun á morgun mæla fyrir á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu.  

Frumvarpið er samið af nefnd sem skipuð var af iðnaðarráðherra. Nefndin var skipuð fulltrúum allra þingflokka sem sæti eiga á Alþingi, þremur fulltrúum frá Samorku og tveimur fulltrúum tilnefndum af iðnaðarráðherra. Að loknu nefndarstarfi voru gerðar nokkrar breytingar á frumvarpinu í samráði við umhverfisráðuenytið og nefndarmenn. 

Helstu atriði frumvarpsins eru eftirfarandi: 

?       Gildissvið laganna er víkkað þannig að lögin ná einnig til nýtingar á vatnsafli til raforkuframleiðslu.

?       Úthlutun leyfa til rannsókna og nýtingar færist frá iðnaðarráðherra til Orkustofnunar.

?       Forræði yfir því hvort auðlindir í jörðu og vatnsafl í eignarlöndum verði rannsakað eða nýtt verður alfarið hjá viðkomandi fasteignareiganda og honum er heimilt að semja um rannsóknir og nýtingu við þá aðila sem hann helst kýs, þó að því gefnu að þeir uppfylli önnur lagaskilyrði og afli annarra tilskilinna leyfa.  Í þjóðlendum og á ríkislandi þarf leyfi Orkustofnunar til rannsókna og nýtingar, sem og heimild þess handhafa ríkisvalds sem fer með forræði á viðkomandi svæði, þ.e. forsætisráðherra í þjóðlendum og landbúnaðarráðherra á ríkisjörðum.

?       Lögfestar eru verklagsreglur um hvernig staðið skuli að afgreiðslu og vali milli umsókna um rannsóknar- og nýtingarleyfi á auðlindum í jörðu og vatnsafli til raforkuframleiðslu í þjóðlendum og landi í ríkiseigu.

?       Auglýsa skal eftir umsóknum um leyfi til rannsóknar og nýtingar á auðlindum í jörðu og vatnsafli á eignarlöndum ríkisins og í þjóðlendum og setja lágmarksskilyrði um fjárhagslegt bolmagn og þekkingu umsækjenda.

?       Að jafnaði verður skylt að taka gjald fyrir nýtingu auðlinda í jörðu og vatnsafls í þjóðlendum og landi í ríkiseigu. Ef fleiri en einn sækja um leyfi skal hagkvæmasta tilboði  tekið, en hagkvæmasta tilboð er það boð sem er hæst að fjárhæð og er í bestu samræmi við þær forsendur sem settar hafa verið fram í gögnum, þar með talið með tilliti til umhverfissjónarmiða.

?       Sú meginregla gildir að rannsóknarleyfi getur falið í sér forgang til nýtingar.

?       Iðnaðarráðherra skal skipa starfshóp sem hafa mun það hlutverk að móta áætlun um nýtingu auðlinda í jörðu og vatnsafls. Áætlunin mun sýna á hvaða svæðum verður heimilt að gefa út leyfi til rannsókna og nýtingar á auðlindum í jörðu og vatnsafli.

?       Umhverfisráðherra mun skipa sérstakan og sambærilegan starfshóp til að móta sérstaka verndaráætlun fyrir auðlindir í jörðu og vatnsafl.

?       Gert er ráð fyrir því að báðir starfshóparnir skili tillögum sínum í formi lagafrumvarps til forsætisráðherra og hann muni skipa sérstakan starfshóp sem hafa mun það hlutverk að samræma tillögur beggja hópanna í eitt lagafrumvarp um verndar- og nýtingaráætlun sem lagt verði fram á haustþingi 2010. 

?       Þar til verndar- og nýtingaráætlun hefur tekið gildi verður heimilt að veita ný rannsóknar- og nýtingarleyfi fyrir kostum í umhverfisflokki a í fyrsta áfanga rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma og þeim kostum í umhverfisflokki b sem ekki eru gerðar sérstakar athugasemdir við vegna umhverfis­verðmæta. Í umhverfisflokkum a og b í rammaáætluninni eru þeir hugsanlegu virkjunarkostir sem minnst umhverfisáhrif eru talin hafa. Þar til verndar- og nýtingaráætlunin hefur tekið gildi verður ekki heimilt að veita ný leyfi til rannsóknar og nýtingar á öðrum kostum til raforkuöflunar nema að undangengnum rannsóknum og mati, og með samþykki Alþingis.

Með frumvarpi þessu er leitast við að leggja grunn að sannkallaðri þjóðarsátt, að sátt milli sjónarmiða verndar og nýtingar, með skipan starfshópa sem móta eiga heildstæða verndar- og nýtingaráætlun fyrir auðlindir í jörðu og vatnsafl á Íslandi.

 

Reykjavík 12. febrúar 2007

 







Stoðval