Samráðsfundur Landsvirkjunar 2004.

2/4/04

Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

 

Ávarp

á samráðsfundi Landsvirkjunar

2. apríl 2004

(í fjarveru ráðherra var ávarpið flutt af ráðuneytisstjóra.)

 

Ágætu samráðsfundargestir 

Um þessar mundir er haldið hátíðlegt aldarafmæli heimastjórnar hér á landi, en hinn 1. febrúar 1904 tók fyrsti íslenski ráðherrann við völdum. Það gerðist fleira á þessu merkisári, meðal annars kom fyrsta bifreiðin til landsins og átti nokkru síðar eftir að valda þáttaskilum í samgöngumálum þjóðarinnar. En ef til vill olli þó mestu aldarhvörfum að fyrsta rafstöðin hér á landi tók til starfa í desember þetta sama ár í Hafnarfirði og á rafvæðing landsins því aldarafmæli síðar á þessu ári. Á þeim tíma var gasið að ryðja sér til rúms í höfuðborginni og fannst flestum það veruleg bylting og menn töldu langt í rafvæðingu bæjarins til lýsingar og hitunar. Það reyndist rétt og liðu 20 ár þar til rafstöðin við Elliðaár tók til starfa.

Heimastjórnartímabilið var afar merkilegur tími í sögu landsins. Þá vaknaði þjóðin til vitundar um möguleika sína og var opin fyrir nýjum tækifærum. Nýir straumar fóru um þjóðfélagið Strax í upphafi tímabilsins hófust verulegar rannsóknir á hugsanlegum virkjunarkostum sem breskir og franskir sérfræðingar unnu að. Fyrstu raunhæfu áætlanirnar um nýtingu vatnsorkulinda landsins voru gerðar á öðrum áratug aldarinnar og þóttu mjög stórhuga. Ekkert varð þó af þeim miklu áformum en þó bar þjóðin gæfu til að reisa virkjanir í Sogi og Laxá nokkru fyrir síðari heimsstyrjöld, sem breyttu verulega högum hennar ekki síst á þeim erfiðu tímum er í hönd fóru.

 

Segja má að hægt hafi miðað í rafvæðingu þjóðarinnar frá því að fyrsta virkjunin tók til starfa og fram undir miðja síðustu öld. Með raforkulögum frá 1947 og stofnun raforkumálaskrifstofunnar verður mikil breyting á. Markmið laganna var að vinna að uppbyggingu á flutnings- og dreifikerfi raforku ásamt því að reisa og reka raforkuver fyrir almennra raforkunotkun og til atvinnuuppbyggingar landsins. Rafvæðing þjóðarinnar var raunar eitt helsta markmið allra ríkisstjórna þjóðarinnar fram á 7. áratug síðustu aldar og enginn vafi er á því að rafvæðingin hafði gífurleg áhrif á hag þjóðarinnar.

 

Með lögum um Landsvirkjun árið 1965 og orkulögum 1967 verður sú meginbreyting á skipan raforkumála að Landsvirkjun er falið að afla raforku til stóriðju og almenningsveitna á orkuveitusvæði sínu, suðvesturlandi, en Rafmagnsveitum ríkisins var falinn rekstur aðveitu- og dreifkerfis landsbyggðarinnar þar sem ekki voru sjálfstæðar rafveitur. Þá var Orkustofnun gerð að sjálfstæðri stjórnsýslu- og rannsóknarstofnun.

 

Með lögum um raforkuver frá 1981 er Landsvirkjun falið að annast alla orkuöflun fyrir landið og með lögum um Landsvirkjun árið 1983 yfirtekur fyrirtækið rekstur byggðalínu, sameinast Laxárvirkjun og verður landsfyrirtæki. Í stórum dráttum er þetta það almenna lagaumhverfi orkumála sem við höfum búið við fram undir síðustu ár og óhætt mun að fullyrða að hefur reynst vel í öllum megin atriðum.

Miklar breytingar hafa orðið í orkuumhverfi okkar á síðasta áratug. Raforkuframleiðslan hefur aukist um tæp 80% og er raforkunotkun á mann hér á landi sú mesta í heiminum. Þá hefur raforkuframleiðsla jarðvarmavirkjana meira en fimmfaldast á liðnum áratug. Á þessu tímabili hefur tekist að skjóta sterkum rótum undir uppbyggingu stóriðju eftir áralanga stöðnun og vel lítur út með frekari aukningu á næstu árum.

Eins og kunnugt er voru ný raforkulög samþykkt á Alþingi í mars 2003. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði laganna var gildistöku III. kafla laganna um flutning raforku frestað til 1. júlí 2004, en sérstakri nefnd sem iðnaðarráðherra skipaði var falið að gera tillögu um fyrirkomulag flutnings raforku, m.a. um stærð flutningskerfisins og hvernig rekstri þess og kerfisstjórnun skuli háttað.

Á grundvelli tillagna nefndarinnar hefur verið lagt fram frumvarp til laga um breytingar á raforkulögum þar sem m.a. er að finna tillögur um breytingar á ákvæðum laganna um flutning raforku. Þar er lagt til að flutningskerfi raforku nái til þeirra háspennulína og tengivirkja sem nú eru á 66 kV spennu eða meiri. Auk þess miðist flutningskerfið við tiltekna afhendingarstaði þannig að allar dreifiveitur sem nú starfa í landinu verði tengdar flutningskerfinu. Samkvæmt þessari tillögu verður raforka frá flutningskerfinu afhent til dreifiveitna á 55 stöðum. Þess er vænst að frumvarpið verði að lögum nú á vorþingi og munu lögin þá koma til framkvæmda um næstu áramót.

Á árinu 1999 hófst að frumkvæði ríkisstjórnarinnar vinna við gerð Rammaáætlunar um virkjanir. Hún er yfirlitsáætlun um nýtingu og hagkvæmni hugsanlegra virkjunarkosta, mat á umhverfisáhrifum er þeir kunna að valda og hver samfélagsleg áhrif virkjana muni verða. Fyrsta áfanga áætlunarinnar lauk um s.l. áramót og stefnt er að því að vinna við annan áfanga hefjist á þessu ári. Sú vinna felst einkum í rannsóknum á ýmsum virkjunarkostum sem eru lítt rannsakaðir ennþá, en einnig eru margir virkjunarkostir sem tilgreindir eru í 1. áfanga en eru lítið rannsakaðir. Því verður áfram unnið við rannsóknir á þessum kostum í öðrum áfanga. Vinna við þetta verkefni er á starfsáætlun ríkisstjórnarinnar. Að mati margra aðila er vel til þekkja er hér um að ræða einstakt verkefni á alþjóðavísu og hefur það vakið nokkra athygli erlendis. Viðtökur við fyrsta áfanga áætlunarinnar hafa verið jákvæðar og enginn vafi er á því að sá samanburður virkjunarkosta er niðurstöður rammaáætlunar veitir gefur okkur gleggri sýn á líklegum virkjunarkostum í næstu framtíð. Þá hefur með vinnu að rammaáætlun myndast mikilvægt gagnasafn um rannsóknir og náttúrufarsaðstæður virkjunarkosta sem kemur að miklu gagni þegar ráðist er í frekari rannsóknir eða nýtingu virkjunarkosta.

Okkur hefur farnast vel hvað varðar nýtingu orkuauðlindanna til raforkuframleiðslu síðustu áratugi. Hin mikla uppbygging virkjana og stóriðju á liðnum áratug hefur verið hröð og er ekki séð fyrir endann á henni. Enginn vafi er á því að nýting orkulinda landsins hefur verið og mun verða einn af grunnþáttunum í efnahagslegri velferð þjóðarinnar.

Þá hefur það átak er gert var á áttunda og níunda áratug síðustu aldar til að auka notkun jarðvarma skilað þeim árangri að um 89% húsnæðis hér á landi er nú hitað upp með hitaveitum. Fjárhagslegur ávinningur þjóðarinnar af nýtingu jarðhitans til hitaveitna á síðustu áratugum hefur því verið gríðarlegur. Árið 1996 mátu sérfræðingar Orkustofnunar að þessi ávinningur næmi árlega 6.5 miljörðum m. v. verðlaga á þeim tíma. Möguleikar á enn frekari nýtingu þessarar auðlindar eru margvíslegir í framtíðinni og horfa menn þar einkum til aukinnar raforkuframleiðslu. Staða okkar íslendinga í orkumálum og þá sérstaklega varðandi nýtingu jarðhitans er mjög sérstök meðal þjóða heims. Ýmsir möguleikar munu verða á útrás sérfræðiþekkingar okkar og reynslu á næstu árum.

Á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Jóhannesarborg haustið 2002 var krafan um stóraukna hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa í hinum þróuðu ríkjum heimsins mjög áberandi. Á fundinum var komið á laggirnar óformlegu samstarfi þjóða heims er búa við mikla möguleika á endurnýjanlegum orkulindum eða hafa áhuga á aukinni notkun þeirra og erum við Íslendingar þar á meðal. Evrópusambandið hefur verið í fararbroddi þeirra ríkja er lengst vilja ganga í kröfum um aukinn hlut endurnýanlegra orkugjafa og sett sér metnaðarfull markmið í því skyni. Alþjóðleg ráðstefna verður haldin í Bonn í júní til að skerpa á áherslum og markmiðum þjóða heims við að auka hlut þessara orkugjafa.

Áhugi á jarðhitanotkun til hitaveitna hefur stóraukist í kjölfar umræðunnar um endurnýjanlegar orkulindir. Nokkur ríki Austur-Evrópu hafa óskað eindregið eftir samstarfi við Íslendinga á jarðhitasviði, en þar er vænlegur markaður fyrir uppbyggingu nýrra hitaveitna á næstu árum, m.a. vegna kröfu Evrópusambandsins um aukna hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa.

Þrátt fyrir mikla reynslu Íslendinga á jarðhitasviðinu hafa erlend verkefni orðið færri en menn höfðu vænst. Um nokkurra ára skeið hafa vonir verið bundnar við öflun jarðhitaverkefna á vegum fyrirtækisins ENE, m.a. í Kína, með stuðningi íslenskra stjórnvalda. Því miður hafa þessar vonir ekki orðið að veruleika svo heitið geti enn sem komið er.

Það er hins vegar alveg ljóst að veruleg áhersla verður lögð á jarðhitanotkun í iðnríkjum heims á næstu árum. Því þurfa allir sem styðja útrás íslenskrar tækniþekkingar í jarðhita að taka höndum saman. Í því skyni ákvað ríkisstjórnin í lok síðasta árs að kosta til helminga á móti Samorku rekstur skrifstofu framkvæmdastjórnar Alþjóða jarðhitasambandsins hér á landi á árunum 2005–2010. Með þessari ákvörðun munu opnast auknir möguleikar á kynningu og útbreiðslu á íslenskri jarðhitaþekkingu og menningu og aukinna jarðhitaverkefna okkar erlendis.

Ég gat þess hér fyrr að lagaumgjörð Landsvirkjunar væri frá árinu 1983. Sameignarsamningi eignaraðila um Landsvirkjun var breytt árið 1996, þá var arðgjafar- og arðgreiðslumarkmiðum fyrirtækisins breytt jafnframt því sem ákveðnum stjórnunarlegum atriðum var breytt í því skyni að líkja betur eftir hlutafélagaforminu. Þáverandi eigendanefnd fór ásamt ráðgjafa sínum, JP Morgan, yfir kosti þess og galla að breyta Landsvirkjun í hlutafélag og minnka eða afnema eigendaábyrgð. Niðurstaðan var sú að gera ekki breytingar á rekstrarforminu en ákveðið var að fyrir 1. janúar 2004 skyldi fara fram endurskoðun á sameignarsamningi um Landsvirkjun, þar á meðal því hvort ástæða væri til að stofna hlutafélag um Landsvirkjun. Nú hefur ný eigendanefnd verið skipuð. Það hefur orðið að samkomulagi á milli eigenda að leggja ekki til breytingar á rekstrarformi fyrirtækisins að svo stöddu. Nefndin skal skoða fjárhagsstöðu og fjármögnun Landsvirkjunar, stöðu fyrirtækisins í breyttu umhverfi raforkumála og gera tillögur um breytingar á sameignarsamningi um fyrirtækið, meðal annars um arðsemismarkmið með hliðsjón af nýjum raforkulögum.

Ágætu samráðsfundargestir.

Allt bendir til þess að veruleg eftirspurn verði áfram á næsta áratug eftir hreinni og endurnýjanlegri orku landsins um langa framtíð er gefur okkur möguleika á að halda áfram að skjóta styrkari stoðum undir atvinnulíf þjóðarinnar. Tími vetnisframleiðslu eða vetnissambanda sem eldsneyti samgangna og skipa kann þá að renna upp samkvæmt nýjustu spám. Þeirri þörf munum við þá auðveldlega geta mætt eftir því sem allar áætlanir benda til.

Það er bjart yfir framtíð íslenskra orkumála nú eins og undanfarna áratugi. Okkur hefur auðnast að nýta orkulindir okkar á sjálfbæran hátt til uppbyggingar atvinnulífs um áratuga skeið til aukins hagvaxtar og velmegunar þjóðarinnar. Svo mun verða lengi áfram.

Ég hef lokið máli mínu og þakka áheyrnina.



 

Valgerður Sverrisdóttir






Stoðval