Ráðuneytið

Umhvefisstefna IVR

Umhverfisstefna í skrifstofuhaldi iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis


I. MARKMIÐ

Umhverfisstefnu iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis er ætlað að samræmast og styðja við önnur rekstrarleg stefnumið ríkisins og að vera hluti af daglegu verklagi ráðuneytisins.

Meginmarkmið stefnunnar er að halda efnisnotkun í skrifstofuhaldi ráðuneytisins í lágmarki og ná fram aukinni hagræðingu með því að fella umhverfisviðmið sem víðast inn í daglegan rekstur þess.
    Tvær leiðir verða farnar til að hrinda meginmarkmiði stefnunnar í framkvæmd:
    1. Í fyrsta lagi að hagnýta kosti upplýsinga- og fjarskiptatækninnar annars vegar til þess að draga úr notkun pappírs og hins vegar til þess að starfsmenn ráðuneytisins geti sinnt eins mörgum verkefnum sínum og kostur er með notkun rafræns búnaðar.
    2. Í öðru lagi að draga að svo miklu leyti sem hagkvæmt er úr notkun einnota og óendurnýtanlegra hluta.

    Ráðuneytisstjóri er ábyrgur fyrir framkvæmd stefnunnar. Hver og einn starfsmaður ráðuneytisins skal engu að síður að eigin frumkvæði fylgja henni og leitast við að haga gjörðum sínum í anda hennar án tillits til þeirra einstöku og takmörkuðu atriða sem sérstaklega eru hér tiltekin.

    Umhverfisfulltrúi iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis er Kristmundur Halldórsson, en hann sér um meginhluta innkaupa ráðuneytisins. Ábendingum um úrbætur skal beint til hans.
    Stefnan skal endurskoðuð árlega og þá leitað eftir hugmyndum starfsmanna.

    II. UMHVERFISSTEFNA Í UPPLÝSINGASAMFÉLAGI

    Notkun upplýsinga- og fjarskiptatækninnar verður samofin allri almennri starfsemi iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis, m.a. með þau markmið í huga að
    · notkun pappírs verði í algeru lágmarki
    · ferðum til að reka erindi ráðuneytisins utanhúss verði haldið í lágmarki.

    Unnið verður að þessum markmiðum á eftirfarandi hátt:
    1. Allir starfsmenn ráðuneytisins verði færir um að nota þau upplýsinga- og fjarskiptatæki sem nauðsynleg eru til að ná settum markmiðum. Til að tryggja þetta verður öllum starfsmönnum boðið upp á námskeið í notkun nauðsynlegra forrita sem ráðuneytið notar og geta orðið til þess að draga sem mest úr notkun pappírs og bæta verklag. Þessu verki verði lokið fyrir árslok 2000 og á hverju hausti þar eftir verði boðið upp á námskeið vegna framkominna nýjunga og til upprifjunar. Við það skal miðað að starfsmenn ráðuneytisins verði í fremstu röð í notkun þessarar tækni.
    2. Innkomin erindi verði mynduð á rafrænan hátt og þeim dreift á rafrænan hátt til ábyrgðarmanna mála og annarra sem málinu tengjast. Við það er miðað að skjöl verði ekki prentuð út oftar en þarf.
    3. Útsend símbréf ráðuneytisins verði rafræn og færð beint á mál af sendanda.
    4. Skilaboð frá afgreiðslu til starfsmanna verði almennt rafræn, svo og skilaboð á milli starfsmanna.
    5. Mál verði að jafnaði skrifuð beint inn í tölvu og dregið sem mest úr pappírsuppköstum.
    6. Skýrslur ráðuneytanna og nefndarálit verði almennt aðgengileg á rafrænu formi á heimasíðu ráðuneytisins. Við það verði miðað að slíkar útgáfur verði einnig aðgengilegar fyrir almenning á pappírsformi en fyrst og fremst prentaðar út úr gagnagrunni eintak fyrir eintak eins og þörf krefur. Ráðuneytisstjóri ákveður hvaða skýrslur verða fjölritaðar eða prentaðar á pappír, svo og upplag þeirra.
    7. Unnið verði að því að öll almenn viðskipti við ráðuneytið geti verið með rafrænum hætti, eins og tæknin og hið lagalega umhverfi leyfir hverju sinni. Að því verður stefnt að öll umsóknareyðublöð, er tengjast leyfisveitingum ráðuneytisins, verði aðgengileg á rafrænu formi og að afgreiðsla þeirra þróist í rafræna afgreiðslu um leið og það verður unnt.
    8. Ráðuneytið munu beita sér fyrir að rafræn viðskipti fái sem víðtækasta útbreiðslu á starfsvettvangi þess.

    III. EFNISNOTKUN, INNKAUP OG ENDURVINNSLA

    Notkun margnota búnaðar verður höfð í öndvegi eins og kostur er á. Jafnframt skal gæta þess að við kaup á aðföngum ráðuneytisins verði tekið mið af umhverfissjónarmiðum og þau sett jafnhátt verði, gæðum og endingu. Þetta skal gert með eftirfarandi hætti:
    1. Gera skal innkaupaáætlun fyrir hvert ár þar sem gerð er grein fyrir endurnýjun búnaðar og fyrirhuguðum nýjum búnaði. Skrifstofustjórar leggja fram tillögur um búnað og innkaupastjóri, sem jafnframt er umhverfisfulltrúi ráðuneytisins, vinnur úr þeim í samræmi við stefnu þessa og önnur viðmið sem hann fer eftir við innkaup fyrir ráðuneytið. Innkaupaáætlun skal samþykkt af ráðuneytisstjóra.
    2. Gera skal skrá um helstu efni sem notuð eru við þrif og einnig almennar rekstrarvörur á skrifstofu ráðuneytisins. Við val þeirra skal síðan taka mið af umhverfissjónarmiðum. Fulltrúi ráðuneytisins í rekstrarstjórn hússins skal halda þessu á lofti gagnvart þeim vörum sem rekstrarstjórnin útvegar.
    3. Að öðru jöfnu skal kaupa vöru merkta með Norræna umhverfismerkinu (Svaninum) og öðrum viðurkenndum umhverfismerkjum.
    4. Við kaup á tölvubúnaði, ljósritunarvörum og öðrum skrifstofuvélum skal gæta þess að tækin beri eftirfarandi merkingar: umhverfismerki, merki um orkunýtni, t.d. "Energy star"-merkið og CE-merkið.
    5. Við endurnýjun prentara verður tekið mið af því að þeir geti prentað báðum megin á pappír.
    6. Við það verður miðað að skriffæri verði enduráfyllanleg og að blekpennar verði notaðir í meira mæli en verið hefur, sem er í samræmi við áherslu ráðuneytisins um varðveislu undirskrifta á bréfum þess.
    7. Við innkaup á pappír til hinna mismunandi nota þarf að meta kosti þess að kaupa umhverfismerktan og/eða endurunninn og óbleiktan pappír.
    8. Öllum endurvinnanlegum pappír er safnað saman í þar til gerða poka í hvorri álmu ráðuneytisins sem síðan er sendur til Gagnaeyðingar hf. Dagblaðapappír og bylgjupappír er haldið sér og hann sendur til Sorpu.
    9. Ónýtum rafhlöðum er safnað saman í safnbauk í afgreiðslu sem síðan fara til Sorpu til eyðingar.
    10. Allir starfsmenn ráðuneytisins fá til afnota sérmerktan bolla. Stefnt skal að því að leggja af notkun plastmála og draga úr notkun einnota vöru.
    11. Síðustu menn slökkvi á ljósum til að spara orku.
    12. Margnota umslög skulu notuð í sem ríkustum mæli.


    IV. FRAMTÍÐARSÝN

    Umhverfisstefna iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis byggir á þeirri framtíðarsýn að smátt og smátt verði unnt að koma á pappírslausu vinnuumhverfi á skrifstofum ráðuneytisins. Slíkt tekur nokkurn tíma og þarf í því sambandi bæði að huga að tæknilegum framförum og þjálfun starfsmanna í því að aðlaga sig að nýju verklagi. Með pappírslausu vinnuumhverfi er stigið yfir mörg millispor í umhverfisstefnu sem tengjast innkaupum og eyðingu á pappír.


     





    Stoðval