Sameining Rarik og Veitustofnana Akureyrar

20.2.2001

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 4/2001




Á fundi ríkisstjórnarinnar þann 2. febrúar 2000 var samþykkt tillaga iðnaðarráðherra um að ganga til samstarfs við Akureyrarbæ um að kanna mögulega kosti varðandi eignaformsbreytingu á RARIK, með aðkomu Akureyrar, og flutningi höfuðstöðva fyrirtækisins til Akureyrar. Jafnframt að kannaður yrði rekstrargrundvöllur fyrirtækis sem þjónaði útvíkkuðu rekstrarsvæði RARIK og hvaða umbætur þyrfti að gera til að tryggja rekstur slíks fyrirtækis. Loks átti að kanna áhrif þess að leggja eignir og rekstur Veitustofnana Akureyrarbæjar (VA) inn í slíkt fyrirtæki.

Í framhaldi af samþykkt ríkisstjórnarinnar var skipuð viðræðunefnd með fulltrúum iðnaðarráðuneytisins og Akureyrarbæjar. Viðræðunefndin ákvað að láta fara fram hagkvæmniathugun á sameiningu RARIK og VA þar sem miðað yrði við að höfuðustöðvar sameinaðs fyrirtækis yrðu á Akureyri. Var athugunin boðin út sl. sumar og var lægsta tilboði tekið en það kom frá ráðgjafafyrirtækinu PricewaterhouseCoopers ehf.

Niðurstaða ráðgjafafyrirtækisins liggur nú fyrir. Helstu niðurstöður eru:
  • Rekstrarlegur ávinningur af sameiningu RARIK og VA er talinn nema tæplega 150 m. kr. á ári. Jafnframt er áætlað að fjárhagsleg áhrif af sameiningu fyrirtækjanna á einn stað verði um 8 m. kr. á fyrsta starfsári en þá hefur verið tekið tillit til kostnaðar vegna flutnings fyrirtækisins, þjálfunar starfsfólks og tekna vegna sölu eigna.
  • Samkvæmt viðhorfskönnun sem gerð var meðal starfsmanna RARIK í Reykjavík sl. haust munu um 85% hætta hjá fyrirtækinu verði höfðustöðvarnar fluttar til Akureyrar. Alls starfa 55 manns í höfðustöðvum RARIK í Reykjavík.
  • Sameining RARIK og VA fellur vel að þeim breytingum sem verða á rekstrarumhverfi orkufyrirtækja í ljósi væntanlegra breytingar á raforkulöggjöfinni í samræmi við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins, 96/92/EB, um sameiginlegar reglur um innri markað fyrir raforku.
  • Talið er að við sameiningu fyrirtækjanna og flutningi til Akureyrar muni starfsmönnum á Akureyri fjölga um 20 manns og margfeldisáhrif starfanna skili sér í íbúafjölgun á svæðinu um 90 manns til lengri tíma. Þá má gera ráð fyrir fjölgun starfa í tæknigreinum og ýmisskonar þjónustu.

Stjórn og starfsmönnum RARIK var kynnt niðurstaða skýrsluhöfunda á fundi í dag, 20. febrúar.

Með hliðsjón af niðurstöðu hagkvæmniathugunarinnar hefur ríkisstjórnin samþykkt að bjóða bæjarstjórn Akureyrarbæjar til viðræðna um hugsanlega sameiningu á RARIK og VA.
Reykjavík, 20. febrúar 2001.





 

Fréttir eftir árum...








Stoðval