Frétt til fjölmiðla vegna veitingar frumkvöðlaverðlauna 2001 í Brussel

15.11.2001

Til fjömiðla


Verðlaunahátíð vegna "European Awards for the Spirits of Enterprise" var haldin í kauphöllinni í Brussel fimmtudaginn 15. nóvember 2001. Það eru samtök ungra evrópskra frumkvöðla sem standa að verðlaununum en þau eru m.a. styrkt af Evrópusambandinu. Markmið verðlaunanna er að efla frumkvæði ungra einstaklinga og eru veitt fyrir bestu viðskiptaáætlanir þeirra. Erik Tomas efnahagsmálaráðherra Brussel-héraðs setti hátíðina og að því loknu ávarpaði Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra samkomuna. Henni var sérstaklega boðið á hátíðina þar sem Ísland tók í fyrsta sinn þátt í keppninni og er jafnframt fyrsta þátttökulandið utan ESB.
Fjögur íslensk verkefni tóku þátt í keppninni og voru þau valin til þátttöku í samkeppni sem fram fór á Íslandi undir heitinu "Nýsköpun 2001" og var á vegum Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, Morgunblaðsins, Sparisjóðanna, KPMG og Háskólans í Reykjavík. Nýsköpunarsjóður hefur kostað námskeið um gerð viðskiptaáætlana víðsvegar um land sem hefur verið undanfari samkeppninnar. Um 200 verkefni voru lögð fram í keppnina hér á landi á þessu ári. Keppt var í fjórum flokkum til samræmis við samkeppni evrópskra frumkvöðla. Voru sigurvegarar flokkanna staddir í Brussel við verðlaunaafhendinguna sem fulltrúar Íslands. Þetta voru Artic Organic í nemendaflokki, Fjölblendir ehf. í frumstigsflokki, Norrænar myndir ehf. í stofnstigsflokki og Bonus Ortho System í vaxtarflokki.
Fjölblendir ehf. er með nýja tegund blöndungs fyrir bensín- og gasvélar, Nordic Photos ehf. sérhæfir sig í ljósmyndum frá Norðurlöndunum sem hægt er að nálgast á netinu, Bonus Ortho System stefnir að framleiðslu og markaðssetningu á sérhönnuðum meðferðar- eða bæklunarskóm og Artic Organic er sölufyrirtæki fyrir lífrænt ræktað kjöt á Evrópumarkað. Íslensku verkefnin voru að þessu sinni ekki verðlaunuð en sum þeirra vöktu athygli fjárfesta og hugsanlegra samstarfsaðila.
Samhliða ofangreindri verðlaunaafhendingu var haldin ráðstefna um þjónustumiðstöðvar fyrir frumkvöðla og lítil fyrirtæki. Á Íslandi hefur slík þjónustumiðstöð verið rekin undir merkjum IMPRU. Um er að ræða samstarfsverkefni iðnaðarráðuneytis, Nýsköpunarjóðs og Iðntæknistofnunar. Fram kom á ráðstefnunni að einn mikilvægasti þáttur í endurnýjun atvinnulífsins er að sinna sérstaklega nýjum vaxtasprotum í þekkingariðnaði. Vegna þess hafa víða verið sett á fót frumkvöðlasetur þar sem vísindalegri þekkingu er breytt í söluhæfa afurð eða þónustu. Slíkt frumkvöðlasetur er rekið á IMPRU. Niðurstöður rannsókna benda til að um 85% fyrirtækja sem verða til inni á frumkvöðlasetrum eru lifandi eftir 3 ár en aðeins um 20% nýrra fyrirtækja sem til verða utan þess stoðkerfis.

 

Fréttir eftir árum...








Stoðval