Heimsókn norska neytendamálaráðherrans, Karita Bekkemellem Orheim

19.10.2000

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 20/2000




Norski neytendamálaráðherrann, Karita Bekkemellem Orheim sem er í heimsókn hér á landi átti í gær fund með Valgerði Sverrisdóttur, viðskiptaráðherra.

Á fundi sínum ræddu ráðherrarnir með hvaða hætti Noregur og Ísland geti styrkt samstarf sitt innan hinnar norrænu samvinnu. Einnig ræddu ráðherrarnir um samstarf landanna á sviði Evrópumála. Ráðherrarnir eru sammála um að á sviði neytendamála eigi ríkin yfirleitt sameiginlegra hagsmuna gæta. Vandamál neytenda sem krefjast aðgerða af hálfu stjórnvalda eru yfirleitt hin sömu óháð búsetu þeirra. Aukin viðskipti yfir landamæri hafa leitt til þess að meiri áhersla er lögð á að tryggja réttarstöðu neytenda þegar þeir kaupa vörur eða þjónustu í öðru ríki en þeir eru búsettir í.

Norðurlöndin standa framarlega á sviði neytendaverndar samanborið við mörg ríki í Evrópu og samstarf landanna er byggt á traustum grunni. Ráðherrarnir vilja að á þeim grunni sæki Norðurlöndin fram og vinni sameiginlega að því að hafa áhrif á þennan málaflokk innan ESB. Það telja ráðherrarnir að megi gera með virkri stefnumótunarvinnu á þessu sviði og vilja þeir beita sér fyrir því að efnt verði til forfunda í norrænu ráðherranefndinni á sviði neytendamála þegar tilefni og aðstæður krefjast þess. Í sameiningu munu ráðherrarnir undirbúa tillögur sem verða kynntar þegar löndunum verður boðið að sitja sérstakan fund í ráðherraráði ESB um neytendmál og þeirra ráðherra sem þar fara með málefni innri markaðarins. Ráðherrarnir hafa áhuga á að leggja fram tillögur um hvernig atvinnulífið geti hagnýtt sér sjónarmið á sviði neytendaverndar í því skyni að byggja upp sterkari fyrirtæki sem taki mið af eðlilegum og réttmætum kröfum neytenda til þeirrar vöru og þjónustu sem þeir eru að framleiða. Einnig muni það þegar til lengri tíma er litið styrkja þau í sífellt harðari samkeppni. Auk þess hafa þeir í hyggju að leggja fram tillögur um með hvaða hætti skuli staðið að því að vernda neytendur gagnvart ólögmætri markaðsfærslu og óréttmætum viðskiptaháttum og þá ekki síst með hvaða hætti sé unnt að vernda börn og unglinga gegn sífellt ágengari markaðsaðferðum sem tíðkast við sölu á vörum og þjónustu. Það mál mun einnig verða tekið fyrir á næsta fundi norrænu ráðherranna sem fjalla um neytendamál.

Framkvæmdastjórn ESB hefur gert tillögu um að ríkin sendi sérfræðing til starfa tímabundið í því ráðuneyti sem fer með málefni neytenda innan hennar. Ráðherrarnir eru sammála um að af hálfu EFTA EES-ríkjanna beri að nýta slík tækifæri.

Ráðherrarnir telja að með aukinni áherslu á málefni neytenda á alþjóðavettvangi þá megi glöggt sjá þess merki að aðgerðir á sviði neytendaverndar færist í æ meira mæli þvert á öll málefnasvið ráðuneytanna. Mikilvægt er því að gott samstarf og skilningur sé innan ríkisstjórna landanna á hinu þverfaglega eðli neytendamálanna. Ráðherrarnir leggja því áherslu á að góð þekking og samstaða skapist varðandi þær aðgerðir sem stjórnvöld telja nauðsynlegar hverju sinni í því skyni að styrkja og efla neytendavernd á hverjum tíma.
Reykjavík, 19. október 2000

 

Fréttir eftir árum...








Stoðval