Skilaréttur - nýjar verklagsreglur og skilaréttarmerki , 09.12.2000

9.12.2000

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 22/2000



Í dag laugardag 9. desember mun viðskiptaráðherra afhenda forsvarsmönnum SVÞ-samtökum um verslun og þjónustu (www.svth.is/fréttir), nýtt merki um skilarétt. Afhendingin fer fram kl.11:00, á kaffihúsinu Kaffitár, í verslunarmiðstöðinni Kringlunni, jarðhæð. Að fundi loknum mun ráðherra festa upp fyrsta skilaréttarmerkið í einni verslun Kringlunnar. Merkið geta þær verslanir notað sem samþykkt hafa nýjar verklagsreglur um skilarétt, gjafabréf og inneignarnótur.

Reglurnar eru árangur af starfi nefndar er ráðherra skipaði 15. september s.l. og skipuð var fulltrúum frá SVÞ- samtökum um verslun og þjónustu, Verslunarráði Íslands, ASÍ, Neytendasamtökunum og viðskiptaráðuneytinu.

Í lögum nr. 50/2000, um lausafjárkaup, er meginregla kauparéttarins sú að almennur skilaréttur er ekki fyrir hendi við kaup á vöru. Aukin samkeppni og breyttir framleiðsluhættir hafa þó á undanförnum árum leitt til þess að mjög margar verslanir hafa veitt neytendum meiri rétt að því er varðar skil á vörum en grunnreglur laga segja til um. Í ljósi neytendaverndar er slík þróun afar jákvæð en fram til þessa hefur mörgum þótt ósamræmi í verklagi varðandi slíkan skilarétt.

Í verklagsreglunum er bætt verulega úr því og settar skýrari reglur um þau lágmarksviðmið sem telja verður ásættanleg fyrir neytendur og seljendur að þessu leyti. Þeir seljendur sem vilja hlíta þessum verklagsreglum og auka þjónustu sína við neytendur munu gera það að eigin frumkvæði og án lagaboðs.

Meginatriði þessara reglna eru:
  • Réttur til að skila ógallaðri vöru sé a.m.k. 14 dagar frá afhendingu.
  • Vörur sem merktar eru með gjafamerki gera kassakvittun óþarfa við skil.
  • Inneignarnótur skulu miðast við upprunalegt verð vöru.
  • Gjafabréf og inneignarnótur gilda í allt að 4 ár frá útgáfudegi.
  • Skilaréttur tekur ekki til útsöluvöru.
  • Verslanir sem samþykkt hafa að starfa samkvæmt reglunum fá til afnota sérstakt Skilaréttarmerki.

Til að stuðla að því að framangreindar verklagsreglur fái sem víðtækust not í íslenskri verslun hefur viðskiparáðherra haft frumkvæði að gerð merkis sem verslunareigendum verður frjálst að nota svo framarlega sem þeir hlíta þeim lágmarksviðmiðunum sem um merkið gilda. Með þeim hætti vill viðskiptaráðherra og stjórnvöld sem fara með málefni neytenda stuðla að lausn þeirra vandamála sem hafa tengst skilarétti, gjafabréfum og inneignarnótum. Íslensk verslun hefur verið í sókn á undanförnum árum. Aukin þjónusta við neytendur s.s. með skýrari verklagsreglum og viðmiðunum um skilarétt, gjafabréf og inneignarnótur er liður í því að styrkja hana enn frekar og gerir verslunina hæfari til að mæta sífellt vaxandi samkeppni.
Reykjavík, 9. desember 2000

 

Fréttir eftir árum...








Stoðval