Stofnun Félags kvenna í atvinnurekstri

8.4.1999

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 6/1999




Iðnaðar- og viðskiptaráðherra skipaði nefnd árið 1997 sem fékk það hlutverk að meta þörf fyrir sérstakar stuðningsaðgerðir sem tækju mið af þörfum kvenna í atvinnurekstri. Nefndin lauk störfum í nóvember 1998 og var það niðurstaða hennar að stuðnings sé þörf. Meginforsendan fyrir mati nefndarinnar var sú, að hlutur kvenna í eigin atvinnurekstri sé ekki sem skyldi og að stuðningur sem leiði til fjölgunar og eflingar fyrirtækja kvenna þjóni hagsmunum efnahags- og atvinnulífs.

Lagði nefndin m.a. til að stofnað yrði félag eða "tengslanet" kvenatvinnurekenda, með stuðningi stjórnvalda, sem hefði það að meginmarkmiði að efla samvinnu og samstöðu þeirra m.a. með það fyrir augum að þær verði áhugaverður markhópur fyrir banka og lánastofnanir.

Í ljósi niðurstaðna og tillagna nefndarinnar skipaði iðnaðar- og viðskiptaráðherra starfshóp í byrjun janúar 1999, sem hafa skyldi forgöngu um stofnun félags kvenna í atvinnurekstri. Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti mun létta undir rekstri félagsins fyrstu árin með starfsmanni hjá IMPRU, þjónustumiðstöð frumkvöðla og fyrirtækja, sem sjá mun um útgáfu fréttabréfa, uppfæra félagatal, innheimta félagsgjöld og aðstoða við rekstur félagsins.

Stofnfundur Félags kvenna í atvinnurekstri verður haldinn á Hótel Loftleiðum, Víkingasal, föstudaginn 9. apríl 1999 og hefst fundurinn kl. 14:00.
Dagskrá fundarins er eftirfarandi:

14:00-14:10 Ávarp Finns Ingólfssonar, iðnaðar- og viðskiptaráðherra.
14:10-14:30 Niðurstöður nefndar um atvinnurekstur kvenna:
Jónína Bjartmarz, lögmaður.
14:30-14:45 Fjármögnun atvinnufyrirtækja – þátttaka Landsbanka Íslands hf. í nýsköpun og atvinnuþróun: Halldór J. Kristjánsson, bankastjóri.
14:45-15:05 Frumkvöðlar í atvinnurekstri - frá sjónarhóli tveggja atvinnurekenda: Ágústa Johnson, framkvæmdastjóri og Sigfríð Þórisdóttir, iðnrekandi.
15:05-15:45 Kaffihlé.
15:45-16:25 Þáttur stjórnvalda í uppsveiflu atvinnurekstrar kvenna í Bandaríkjunum: Betsy Myers, Ass. Deputy Administrator for Entrepreneurial Development and Welfare to Work.
16:25-16:35 IMPRA - þjónustumiðstöð fyrir frumkvöðla og fyrirtæki: Brynhildur Bergþórsdóttir, rekstrarhagfræðingur, Iðntæknistofnun Íslands.
16:35-17:00 Stofnyfirlýsing - samþykktir félagsins - kosning stjórnar.
17:00 Léttar veitingar.

 

Fréttir eftir árum...








Stoðval