Meint útgáfa á leyfi til bifreiðasölu

27.4.1998

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 6/1998


Vegna fréttaflutnings um helgina, þar sem fjallað var um meinta útgáfu viðskiptaráðuneytisins á leyfi til bifreiðasölu á grundvelli vafasamra pappíra, vill ráðuneytið taka eftirfarandi fram:

Þann 11. maí 1994 voru sett lög um sölu notaðra ökutækja. Samkvæmt þeim var leyfisveiting og eftirlit í höndum sýslumannna.

Þann 12 júlí 1995 gaf Sýslumaðurinn í Reykjavík út leyfi til handa umræddum bifreiðasala. Til grundvallar útgáfu leyfisins lágu þau gögn sem lög kváðu á um, þ.e. forræðisvottorð, prófskírteini prófnefndar bifreiðasala og yfirlýsing frá Sparisjóði Mýrarsýslu, undirrituð af sparisjóðsstjóra, um að umræddur bifreiðasali hefði starfsábyrgðartryggingu hjá sparisjóðnum. Tryggingin var ótímabundin.

Þann 17. apríl 1997 var lögum um sölu notaðra ökutækja breytt. Viðskiptaráðuneytið tók þá við útgáfu leyfa en eftirlit með starfsemi bifreiðasala færðist til lögreglustjóra á hverjum stað.

Eftir að viðskiptaráðuneytið tók við leyfisútgáfunni óskaði það eftir staðfestingu á að starfsábyrgðartryggingar bifreiðasala væru í gildi. Ráðuneytinu barst þá staðfesting vegna umrædds bifreiðsala og var hún undirrituð af fyrrnefndum sparisjóðsstjóra. Rétt er að ítreka að upphafleg starfsábyrgðartrygging var ótímabundin og því ekki ástæða til annars en að taka þessa staðfestingu gilda. Ennfremur skal það ítrekað að viðskiptaráðuneytið hefur ekki staðið að útgáfu leyfis til handa umræddum bifreiðasala.

Nú hefur viðskiptaráðuneytið haft spurnir af því að lögreglu hafa borist kærur vegna starfsemi umræddrar bifreiðasölu, m.a. vegna starfsábyrgðartryggingarinnar. Um frekari upplýsingar vegna þess máls er vísað á lögregluna í Reykjavík.

Rétt er að taka fram að þann 10. mars síðastliðinn skilaði umræddur bifreiðasali leyfi sínu til viðskiptaráðuneytisins. Rúmri viku síðar, eða 18. mars, fær ráðuneytið fyrst vitneskju um meinta fölsun umræddrar starfsábyrgðartryggingar, með bréfi frá lögmanni Sparisjóðs Mýrarsýslu.

Viðskiptaráðuneytið ítrekar með fréttatilkynningu þessari að það hafði ekkert með útgáfu umrædds leyfis að gera og vísar því gagnrýni þess efnis á bug. Útgáfa þess var á grundvelli þeirra laga sem þá voru í gildi og því á ábyrgð Sýslumannsins í Reykjavík.

Reykjavík, 27. apríl 1998


 

Fréttir eftir árum...








Stoðval