Árangur af breyttu skipulagi rafmagnsöryggismála

9.9.1999

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 14/1999



Í september 1998 skipaði iðnaðar- og viðskiptaráðherra vinnuhóp til að meta árangur af breyttu fyrirkomulagi rafmagnsöryggismála á þessum áratug. Vinnuhópnum var einkum ætlað að meta hvaða þróun hefur orðið varðandi eftirlit raforkuvirkja, öryggi neytenda, tilkostnað við rafmagnseftirlit, flutning og notkun raforku og hvernig til hefur tekist að auka ábyrgð eigenda raforkuvirkja og þeirra fagmanna sem að raforkumálum koma.

Í vinnuhópinn voru skipaðir: Egill B. Hreinsson prófessor, formaður, Bergur Jónsson, verkfræðingur og Guðmundur K. Steinbach, verkfræðingur. Starfsmaður og ritari vinnuhópsins var Björn Ingi Stefánsson verkefnisstjóri.

Vinnuhópurinn hefur lagt áherslu á að skoða og meta breytt viðhorf og aðferðafræði í rafmagnsöryggismálum og eðli opinbers eftirlits almennt og rafmagnseftirlits sérstaklega. Sérstaklega var farið yfir þætti svo sem ábyrgð og hlutverk hins opinbera, rafverktaka, eigenda búnaðar og óháðra skoðunarstofa. Athugað var fyrirkomulag úrtaksskoðana miðað við fyrri aðferðafræði. Farið var yfir fyrirkomulag eftirlits fyrr og nú með raflögnum í íbúðar- og atvinnuhúsnæði (svokölluðum neysluveitum) svo og eftirlit með öryggi háspenntra og lágspenntra raforkuvirkja hjá rafveitum og stórum og smáum iðnfyrirtækjum. Skoðað var fyrirkomulag eftirlits með rafbúnaði (rafföngum) á markaði og hvernig prófunum raffanga er og hefur verið háttað. Einnig skoðaði vinnuhópurinn heildarkostnað við rafmagnsöryggismál fyrir og eftir þær breytingar sem gerðar hafa verið.

Helstu breytingar sem gerðar hafa verið á fyrirkomulagi rafmagnsöryggismála frá árinu 1993 eru eftirfarandi:
1. Rafmagnseftirlit ríkisins (RER) hefur verið lagt niður og Löggildingarstofa tekið við hlutverki þess frá og með áramótun 1996/1997.
2. Prófunum á rafföngum hefur verið hætt hér á landi. Þessar prófanir voru áður hjá Rafmagnseftirliti ríkisins (RER). Í stað markaðseftirlits RER sjá nú óháðar faggiltar skoðunarstofur um framkvæmd markaðseftirlits í umboði og með samningi við Löggildingarstofu.
3. Framkvæmd rafmagnseftirlits hefur verið falin óháðum faggiltum skoðunarstofum á rafmagnssviði. Skoðunarstofur sem eru í eigu einkaaðila starfa samkvæmt samningi og í umboði Löggildingarstofu.
4. Teknar hafa verið upp úrtaksskoðanir í stað alskoðana (100% skoðana) á nýjum neysluveitum. Skoðanir á neysluveitum í rekstri í venjulegu íbúðarhúsnæði hafa verið lagðar niður. Skoðað er samkvæmt skilgreindum skriflegum verklagsreglum af skoðunarstofum í umboði Löggildingarstofu.
5. Gerð er krafa um að rafveitur og löggiltir rafverktakar komi sér upp innra öryggisstjórnunarkerfi. Þessi öryggisstjórnunarkerfi eru síðan tekin út og skoðuð af skoðunarstofum (í umboði Löggildingarstofu) í þeim tilgangi að tryggja að þau standist kröfur um vandaða vinnu og öryggi búnaðar.

Meðal þess árangurs sem vinnuhópurinn telur að náðst hafi er að tekist hefur að lækka kostnað verulega við rafmagnsöryggismál og að grundvallarbreytingar fyrirkomulagsins eru til bóta. Þær hafi verið eðlilegar og nauðsynlegar miðað við margvíslegar breyttar aðstæður og viðhorf til þessara mála í þjóðfélaginu. Í því efni má sérstaklega nefna:
1. Eftirlit er samræmt um land allt, fært til óháðra aðila og skilið frá framkvæmdum og ráðgjöf. Samdar hafa verið og settar skilgreindar og samræmdar skriflegar vinnureglur eftirlits.
2. Samræmi er í hlutverkum og ábyrgð aðila í orði og á borði. Lögð er áhersla á að eigendur búnaðar beri ábyrgð á eignum sínum, en fagaðilar faglega ábyrgð á verkum sínum.
3. Tekin hefur verið upp aðferðafræði úrtaksskoðana (10-25% úrtak) í stað alskoðana (100%) með það að markmiði m.a. að ná hliðstæðum árangri með minni tilkostnaði.
4. Lögð er áhersla á gæðaeftirlit og öryggisstjórnun sem eðlilegan og sjálfsagðan þátt í góðum stjórnunarháttum fyrirtækja á þessu sviði.

Meirihluti vinnuhópsins styður þær breytingar skipulags að leggja af eftirlit með eldri raflögnum í íbúðarhúsnæði (svokallaðar neysluveitur í rekstri), leggja niður raffangaprófun á vegum ríkisins, og þátt rafveitna og rafmagnseftirlitsmanna þeirra í eftirliti neysluveitna.

Vissir tímabundnir erfiðleikar hafa þó að mati vinnuhópsins verið í framkvæmd nýrra aðferða, aðlögun að nýjum hugsunarhætti og að ná sátt um hið nýja fyrirkomulag. Til að bregðast við þessum vanda leggur vinnuhópurinn m.a. til:
  • Að auka tengsl, kynningu og fræðslu af hálfu stjórnvalda einkum við rafverktaka og eigendur mannvirkja um eigin ábyrgð og innra eftirlit svo sem varðandi frekari þróun innri öryggisstjórnunarkerfa rafverktaka og rafveitna.
  • Að auka tímabundið beinar úrtaksskoðanir á raflögnum á meðan skilningur, sátt og samvinna er að nást um nýja aðferðafræði, þótt til langs tíma litið sé það mat vinnuhópsins að núverandi úrtak sé hæfilegt.
  • Að skoða vinnuferla í tengslum við uppsetningu og frágang nýrra raflagna (neysluveitna) svo tryggt sé að þær séu tilkynntar til Löggildingarstofu er síðan hefur með höndum yfirumsjón eftirlits og skoðunar.
  • Að koma á fót gagnagrunni um neysluveitur þannig að unnt sé að veita eigendum þeirra stuðning og ábendingar um endurnýjun þeirra og viðhald.
  • Að kanna hugsanlegt samstarf við tryggingafélög varðandi afslátt af iðgjöldum, sinni eigendur neysluveitna eðlilegu viðhaldi og eftirliti með eignum sínum.
  • Að fram fari sjálfstætt mat á þeirri áhættu sem fylgir raflögnum miðað við aðra áhættuþætti er geta valdið brunatjóni t.d. í íbúðarhúsnæði.
Niðurstaða vinnuhópsins er sú að núverandi ástand rafmagnsöryggismála og rafmagnseftirlit sé gott og að ný aðferðafræði og hugmyndafræði með notkun úrtaksskoðana, innri öryggisstjórnunar, faggiltra skoðunarstofa o.fl. myndi traustan og góðan grunn fyrir framtíðarskipan þessara mála.

Bergur Jónsson verkfræðingur og fyrrum forstöðumaður Rafmagnseftirlits ríkisins skilaði séráliti en tekur þó undir meginniðurstöður vinnuhópsins.

Reykjavík, 8. september 1999.

 

Fréttir eftir árum...








Stoðval